Leita í fréttum mbl.is

sjómannslíf.

Góðan og blessaðan daginn. Það er herra Vala Matt sem skrifar að þessu sinni fyrir hönd stýrimannsvaktarinnar en Kastljóskóngurinn er farinn í land með fulla buddu af aurum. Það kemur svo í ljós í næstu viku hvort það verður Logi Bergmann, Hemmi Gunn eða Sirry sem skrifar pistilinn fyrir hönd vaktarinnar.

Já sjómennska er ekki það sama og sjómennska! Frá því að  ég var 15 vetra hef ég fengið tækifæri á því að leika lítil gestahlutverk um borð í togurum og loðnubátum og kunna því  mjög vel. Hefur þetta alltaf farið fram í þokkalega snyrtilegum ryðkláfum og leiksviðið hefur ávalt verið reykmettaðar innréttingar, grútskítugar stakkageymslur og þröngir tveggja til þriggja manna klósettlausir klefar. Karakterarnir hafa oftast verið í formi úrillra, daunillra, kamel reykjandi, lopapeysu-beljaka sem vakna ekki fyrr en eftir þrjár rettur og tvo rótsterka kaffibolla. Þessir karakterar láta sér lítið skipta óþarfa hreinlæti eða hugulsemi heldur rjúka áfram af meira kappi en forsjá... topp menn! Þetta var það umhverfi sem ég kannaðist við og hafði tekið þátt í. Ég átti því ekki von á öðru en þessu þegar ég fékk hringingu frá Kaptein Daða og ég boðaður um borð í Aðalstein Jónsson. Þegar um borð í Aðalstein var komið tók við veröld sem ég þekkti ekki, ég vissi ekki hvort ég var lífs eða liðinn, hvort ég hafi verið numinn á brott af geimverum eða væri fórnarlamb í falinn myndavél.... ég var allt í einu staddur inn í klefa sem var á stærð við delux herbergi á flugleiða hótelinu. Það voru hrein sængurföt á leðurstól við kojuna mína, flísalagt baðherbergi með stórri sturtu og upphengdu klósetti. Ég fékk mér sæti á leður sófanum sem tilheyrði afslöppunar álmu klefans og dróg andann djúpt til að átta mig að aðstæðum. Þetta var of flott til að vera satt!! Þar sem ég var ennþá að reyna að átta mig á aðstæðum kíkti ég ofan í skúffuna undir kojunni en þar blasti við mér 380 bækur af Rauðu seríunni eða upplag allt frá árinu 1981. Mér stóð ekki alveg á sama og vissi ekki hvort ég var kominn út á sjó eða hvort væri búið að læsa mig inn á herbergi 312 í kvennafangelsinu í Kópavogi. Eftir að hafa gluggaða aðeins í bókina " bláu augun þín" úr Rauðu seríunni rölti ég mér upp í borðsal til að hitta mannskapinn og fá mér léttan snæðing. Þegar ég var rétt búinn að tylla mér niður í gyltasalnum og fá mér lambkjöt á diskinn vindur sér að mér maður, dökkur á hörund í hvítum kokkagalla og segir með sterkum hreim " má bjóda tér meiri rjómi"?? Þetta hljómaði eins og á ítölskum resturant. Enn og aftur stóð ég á gati. Þar sem ég sat þarna og úðaði í mig þessum guðdómlegu kræsingum byrjar áhöfnin að koma inn í boðsalinn. Þetta voru ekki neinir kamelreykjandi lopapeysu kallar heldur vel klæddir og stæltir herramenn. Fyrstur kom inn svampur sveinsson eða Pétur grímseyingur. Ég sá strax að það var ekki allt með feldu því hann svitnaði eins og veðhlaupahestur við það eitt að bjóða mér góðan daginn en hann var í sama hlutverki og ég, í sínum fyrsta túr. Þar sem ég er að telja svitaperlurnar á enninu á honum dregur fyrir sólu og inn labbar golíat.... mér er litið upp og ég horfi beint í klofið á tröllvöxtum manni. þarna er mættur hann Haraldur og vissi ég strax að þennan mann myndi ég aldrei vilja styggja því hann myndi rífa af mér alla útlimi og henda mér eins og kartöflupoka í sjóinn ef ég myndi sýna einhverjar snöggar hreyfingar. En sú var ekki raunin, golíat hefur hjarta úr gulli og myndi ekki gera flugu mein ( nema hugsanlega núna eftir að hann les þetta..) Vappandi á eftir honum kemur Sævar eða " sævar of the lambs " og við skiptumst á hugskeytum og vangaveltum og það algjörlega án orða og það færði mig aftur yfir í það að halda að ég hefði verið numinn á brott af geimverum. Kapteinn Daði kom þá niður og vildi sýna mér restina af skipinu. Þegar við gengum eftir fyrsta ganginum mætir mér til mikillar hræðslu, skelfirinn frá unglings árum mínum. Þetta var enginn annar en Kiddi stálhnefi maðurinn sem rotaði diskó kónginn og júróvisíon dansarann Draupni. Ég vissi að þessi maður var til alls líklegur og hafði mig ekkert í frammi á meðan Daði ræddi við hann. Seinna kom svo í ljós að Kiddi hefur verið hingað sendur frá annari vídd því hvílík innri ró og jafnvægi er vart að finna í þessum heimi. Gullsálin eins og ég kýs að kalla hann núna er líklegast með betri mönnum sem ég hef hitt á lífsleiðinni. Á ganginum langa mættum við svo öðrum manni sem leit út fyrir að vera nokkuð normal nema fyrir utan að það lak úr nefinu á honum svartur taumur sem ég gat ekki útskýrt. Þar sem ég stari á þennan svarta taum skýst út úr honum tungan eins og á gaddeðlu og hrifsar tauminn úr nefinu á sér.. augun ranghvelfast svo eins og um fullnæginu væri að ræða. Þetta var Badda stýrimaður, topp maður þar á ferðinni. Það eru svo mun fleiri eðalmenn hér um borð og mun ég fara betur í saumana á því á næstu dögum. Annars erum við á leiðinni í land með nánast fullt skip og allir sáttir og sælir með það enda ekki annað hægt. Þetta er fátt eins gaman og að sigla á góðu og fallegu skipi með skemmtilegri áhöfn.

Þangað til næst.

kv. Dáni og strákarnir á Allanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Uppsjávarskipið

Aðalsteinn Jónsson SU-11
Aðalsteinn Jónsson SU-11
Heimasíða Aðalsteins Jónssonar SU-11
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband